564 4050

Extra Mile (hjólahópur)

Upplýsingar Kennarar Salir

Salir

Salur 2

Kennarar

Gunnhildur Þráinsdóttir

Hóptímakennari

Extramileflettipro

ATH! 15 ára aldurstakmark er á þetta námskeið.

Hvað er Extra Mile?

Extra Mile er fyrir áhugafólk um hjólreiðar sem langar til þess að bæta form, tækni og fræðast meira um sportið. Markmiðin eru einnig að auka vellíðan, þor og sjálfstæði í sporti sem býður upp á gríðarlega mikla möguleika þegar kemur að æfingum og útivist. Þjálfarar Extra Mile eru reynt keppnis- og landsliðsfólk og hafa óbilandi áhuga á að miðla þekkingu og góðum ráðum í hjólreiðum. Tímarnir eru þannig upp settir að miðað er að því að hámarka árangur á þeim takmarkaða tíma sem gefst til þess að stunda æfingar.

Þjálfunin hentar öllum og reynsla af hjólreiðum er ekki skilyrði. Þjálfararnir munu leiðbeina hverjum og einum til þess að æfingarnar skili sem mestum árangri.

Uppbygging tímana

Hjólað er í 60-75 mínútur í senn eftir prógrammi sem sett er saman af þjálfurum Extra Mile. Prógrammið miðar að því að restin af vetrinum sé notuð til þess að byggja upp styrk, þol og tækni sem munu nýtast inn í sumarið sem er aðaltímabil hjólreiðanna hvort sem markmiðið er að njóta eða þjóta. Gert er ráð fyrir að iðkendur séu í sínu besta hjólaformi í seinni part júnímánaðar (kringum WOW Cyclothon). Forminu er viðhaldið yfir sumartímann og stuðlað að bætingu. Þegar æfingarnar eru færðar út í vor munu þjálfarar einnig fara yfir tækni, líkamsstöðu og öryggi á hjólinu. Fyrir hjólreiðafólk sem hyggst taka þátt í keppnum yfir sumarið eða fara lengri ferðir á hjóli munu þjálfarar einnig fara yfir nytsamlega punkta hvað varðar hámörkun árangurs í slíkum aðstæðum.

Yfir vetrartímann er æft á trainerum í Sporhúsinu. Þátttakendur þurfa að koma með eigin hjól í tímana og fá þar aðstoð við að setja upp búnaðinn. Það er skilyrði að hjólið sé á götuhjóladekkjum/sléttum dekkjum að aftan.
Yfir sumartímann er æft úti við en þjálfarar sjá til þess að æfingarnar séu einstaklingsmiðaðar þannig að hraði og reynsla hvers og eins skiptir ekki máli. Með öðrum orðum, enginn er skilinn eftir og ekki er þörf á að bíða eftir neinum.

Þátttakendur fá sirka 30 mínútna lyftingarprógramm sem hentar vel með hjólreiðum. Það geta þeir gert hvenær og hvar sem þeim hentar. Einnig fá þátttakendur 10 mínútna teygjuprógramm sem tekur á þeim vöðvum sem unnið er með á hjólinu. Mælt er með að teygjur séu gerðar eftir hvern tíma en verður ekki undir leiðsögn þjálfara.

Einnig fær hópurinn reglulega gestaþjálfara í heimsókn.

170106-DSC06913-web-

Þjálfarar

Björk Kristjánsdóttir
Björk hóf keppnisferil sinn í hjólreiðum í lok árs 2014. Eftir stífar æfingar og mikla vinnusemi átti hún framúrskarandi keppnistímabil árið 2015 og hampaði Íslandsmeistaratitlum í götuhjólreiðum, fjallahjólreiðum og cyclocross. Auk þess landaði hún fyrsta sæti í bikarkeppnum sumarsins svo eitthvað sé nefnt.
Árið 2016 hóf hún að þjálfa hjólreiðafólk en keppti meðal annars fyrri hluta árs í fjöldægra keppni á Möltu þar sem hún hafnaði í þriðja sæti í heilarúrslitum kvennaflokks.

Björk hefur frá barnsaldri verið mikill íþróttaálfur og hefur æft og keppt í fleiri en einni íþróttagrein. Þegar hjólreiðar birtust á radarnum hafði hún stundað Bootcamp æfingar og fjallaskíði af miklu kappi um nokkra stund.

Óskar Ómarsson
Óskar er án efa reynslumesti hjólreiðamaður teymisins en hann hefur verið í fremsta flokki í keppnishjólreiðum um nokkurra ára skeið. Óskar á marga sigra í götuhjólreiðum á bakinu. Óskar hefur haft ástríðu fyrir hjólreiðum frá unga aldri og tekur þróun í hjólreiðasportinu fagnandi en ótal dyr hafa opnast hjólreiðaiðkendum á Íslandi á síðustu árum.

Óskar stefnir ótrauður áfram að því að bæta sig, hjóla hraðar og ná meiri árangri en hann hefur verið valinn í landsliðsúrtak Hjólreiðasambands Íslands (HRÍ) fyrir 2017.

Ágústa Edda Björnsdóttir
Ágústa er ein sigursælasta hjólreiðakona á Íslandi árið 2016 en hún hóf keppnisferil sinn síðsumars 2015. Í dag hefur hún tryggt sér sæti í landsliðsúrtaki HRÍ og ætlar sér stóra hluti í hjólreiðum á næsta tímabili. Ágústa er mikill reynslubolti þegar kemur að æfingum og keppnisíþróttum en hún á að baki glæsilegan feril í handbolta. Hún spilaði sinn feril með Gróttu/KR og Val og var í landsliðinu í 13 ár, 1997-2010. Ágústa var valin íþróttamaður Seltjarnarness árið 2000 og handboltakona ársins árið 2006.

Birkir Snær Ingvarsson
Birkir er yngsti og nýjasti meðlimur teymisins en hann er einn efnilegasti hjólreiðamaður landsins. Hann hóf keppnisferil sinn árið 2016 með góðum árangri. Áður en Birkir byrjaði að leggja stund á hjólreiðar af kappi æfði hann knattspyrnu með Breiðabliki með góðum árangri. Þrátt fyrir að hafa lagt boltann á hilluna hefur hann ekki setið auðum höndum en crossfit og almenn líkamsrækt hefur átt fastan sess í hans lífi.

Nú hefur nýtt sport með nýjum og metnaðarfullum markmiðum rutt sér til rúms en Birkir hefur nú þegar verið valinn í landsliðsúrtak HRÍ í hjólreiðum og stefnir hátt enda á hann framtíðina fyrir sér.